Ferill 716. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1193  —  716. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hlutafélaginu er heimilt að taka þátt í öðrum félögum eða með stofnun dótturfyrirtækja að fjárfesta í öðrum greinum atvinnurekstrar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu og er það flutt til að heimila Norðuráli hf. að taka þátt í öðrum félögum og fjárfesta í öðrum atvinnurekstri en áliðnaði.
    Í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, er tekið fram að iðnaðarráðherra sé veitt heimild til að gera samninga fyir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma laganna við hlutafélag og stofnanda þess, en félagið verði stofnað í þeim tilgangi að reisa og reka álbræðslu og tengd mannvirki á Íslandi. Norðurál hf. var stofnað í þessum tilgangi og undirritaði iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands samninga við Norðurál hf. og Columbia Ventures Corporation um álbræðslu á Grundartanga í ágúst 1997.
    Af ákvæðum laga nr. 62/1997 er óljóst hvort Norðuráli hf. er heimilt að taka þátt í öðrum atvinnurekstri. Starfsheimildir félaga sem starfa samkvæmt sérlögum sem hafa að geyma sérstakar skattlagningarreglur eru yfirleitt taldar takmarkaðar og því talið að þeim sé óheimilt að taka þátt í öðrum rekstri nema kveðið sé á um slíkt í lögum sem um starfsemina gilda. Í samræmi við þetta var á 111. löggjafarþingi samþykkt breyting á lögum nr. 18/1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, sem heimilaði Íslenska járnblendifélaginu að taka þátt í öðrum greinum atvinnurekstrar. Sambærileg heimild var samþykkt á 112. löggjafarþingi fyrir Kísiliðjuna hf. með breytingu á lögum nr. 80/1966. Þá var ákvæðum aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse Lonza-Holding Ltd. sem takmörkuðu starfsréttindi Ísals í aðalatriðum við rekstur álbræðslu breytt með samþykkt laga um lagagildi fimmta viðaukasamnings á 120. löggjafarþingi þannig að starfsréttindin yrðu eingöngu háð ákvæðum laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Þar sem góð reynsla er komin á rekstur álbræðslunnar á Grundartanga eru ekki rök til að takmarka starfsheimildir Norðuráls hf. umfram önnur sambærileg fyrirtæki hér á landi. Í frumvarpinu er því lagt til að lögum nr. 62/1997 verði breytt þannig að tekin verði af öll tvímæli um heimildir Norðuráls hf. til þátttöku í öðrum rekstri. Þar sem lögin kveða á um sérstakar skattlagningarreglur sem fyrst og fremst eiga við um álbræðslu verður Norðurál hf. að stofna sérstök dótturfélög um aðra starfsemi en vinnslu á áli og slík dótturfélög skulu greiða skatta samkvæmt almennum íslenskum skattalögum. Með þessu verða starfsréttindi Norðuráls hf. eingöngu háð ákvæðum laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og félagið eins sett og sambærileg fyrirtæki hér á landi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila Norðuráli hf. að taka þátt í öðrum félögum með stofnun dótturfyrirtækja og að fjárfesta í öðrum greinum atvinnurekstrar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.